Körfubolti

Bill Simmons: Phil Jackson ætti bara að snúa sér að handboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jackson vann sex NBA-titla með Michael Jordan.
Phil Jackson vann sex NBA-titla með Michael Jordan. Vísir/Getty
Phil Jackson hefur unnið fleiri NBA-titla sem þjálfari en nokkur annar í sögu deildarinnar, elleftu talsins. Hann má hinsvegar muna sinn fífil fegurri eftir skelfilega frammistöðu sína sem framkvæmdastjóri hjá New York Knicks.

Bill Simmons er einn af frægustu spjallaþáttastjórnendum Bandaríkjanna þegar kemur að umfjöllun um íþróttir og hann er reglulega með The Bill Simmons Podcast á netinu.  Simmons lætur sínar skoðanir flakka og hann hefur fundið framtíðarstarf fyrir fyrrum framkvæmdastjóra New York Knicks.

Simmons er á því að Phil Jackson eigi bara að segja skilið við körfuboltann og snúa sér að því að reyna að koma bandaríska handboltalandsliðinu á hærri pall. Það gekk ekkert hjá honum að búa til alvöru lið í New York og liðið er nánast rústir einar eftir þriggja ára starf Jackson.

Maðurinn sem gerði Chicago Bulls sex sinnum að meisturum og vann fimm NBA-titla með Los Angeles Lakers var augljóslega ekki rétti maðurinn í starfið í Madison Sqaure Garden.

Hlustandi sendi Bill Simmons skilaboð þar sem hann lagði það til að Phil Jackson snúi sér núna að bandaríska landsliðinu í handbolta og reyna um leið að nýta sér kunnáttu sína á þríhyrningssókninni til að koma með hana inn í handboltann.

Simmons tók heldur betur undir það. „Ef hann kemur upp með handboltann þá væri allt þetta New York Knicks vesen fyrirgefið,“ sagði  Bill Simmons í léttum tón.

Simmons talaði síðan í alvöru um það hversu margt væri líkt með handboltanum og körfuboltanum miðað við það sem hann sá af handbolta á Ólympíuleikunum í London 2012.

Simmons segist vilja sjá körfuboltaleikmenn reyna fyrir sér í handbolta og skilur ekki af hverju Bandaríkin geti ekki fengið þá körfuboltamenn, sem eiga ekki möguleika á því að komast í NBA, til að reyna fyrir sér í handbolta.  Það ætti allavega að vera nóg að góðum íþróttamönnum í landinu til að búa til gott handboltalið.

Það má hlusta þetta með því að smella hér en umræðan um Phil Jackson og handboltann hefst eftir rúmar þrettán mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×