Erlent

Rekin úr Íhaldsflokknum fyrir rasísk ummæli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anne Marie Morris er hér ásamt þáverandi formanni Íhaldsflokksins, David Cameron, í kosningabaráttunni árið 2015.
Anne Marie Morris er hér ásamt þáverandi formanni Íhaldsflokksins, David Cameron, í kosningabaráttunni árið 2015. vísir/getty
Breska þingkonan Anne Marie Morris var í dag rekin úr Íhaldsflokknum fyrir rasísk ummæli sem hún lét falla á opnum fundi um Brexit í London en þar notaði hún enska orðið „nigger“ eða „negri“ til að lýsa því hvað gæti hugsanlega gerst ef Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið án samnings.

Fjallað er um málið á vef BBC og er þar haft eftir Morris að hún hafi látið ummælin falla óvart. Þá biðjist hún afsökunar á því ef einhver hafi móðgast vegna þessa.

Theresa May, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, sagði að hún væri í áfalli vegna ummæla Morris. Orðnotkun eins og þessi væri algjörlega óásættanleg og ætti hvorki heima í stjórnmálum né samfélaginu yfirleitt.

Morris var eins og áður segir að ræða möguleg áhrif þess ef Bretland myndi skilja við ESB án samnings. Notaði hún orðatiltæki sem innihélt orðið „negri.“ Orðatiltækið á uppruna sinn að rekja til miðrar 19. aldar þegar þrælar frá Suðurríkjunum földu sig í hinum ýmsu farartækjum þar sem þeir voru að flýja til Norðurríkjanna í tilraun til þess að öðlast frelsi.

Á 20. öldinni var orðatiltækið síðan notað af ýmsum rithöfundum sem myndlíking fyrir staðreynd eða vandamál sem væri falið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×