Erlent

Júlí var óvænt hlýjasti júlímánuður á jörðinni frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Frávik hitastigs í júlí 2017 borið saman við miðgildishita áranna 1951-1980.
Frávik hitastigs í júlí 2017 borið saman við miðgildishita áranna 1951-1980. NASA/GISS/GISTEMP
Meðalhiti jarðar í júlí jafnaði met yfir heitasta júlímánuð sem mælst hefur samkvæmt athugunum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Metjöfnunin kemur nokkuð á óvart.

Ekki er tölfræðilegar marktækur munur á milli meðalhitans í júlí nú og í fyrra. Júlí 2016 hefur fram að þessu verið talinn hlýjasti mánuðurinn frá upphafi mælinga á 19. öld. NASA birti tölur sínar í gær.

Alls var hitastigið um 0,83°C hærra en að miðgildi í júlí frá 1951-1980. Það er 0,01°C hlýrra en júlí í fyrra en innan skekkjumarka. Þetta er 384. mánuðurinn í röð þar sem hitastig er ekki lægra en meðaltalið, samkvæmt frétt á vef Weather Channel.

Methiti þótt El niño njóti ekki við

Fyrstu mánuður ársins í ár hafa mælst þær næsthlýjustu frá upphafi mælinga. Við því hafði verið búist í kjölfar metársins 2016 þegar veðurfyrirbærisins El niño naut við. Óvenjumikil hlýindi einkenna yfirleitt El niño-ár.

Því þykir það koma á óvart að júlímánuður hafi jafnað hitamet síðasta árs, jafnvel þó að El nino sé ekki til staðar til að keyra upp hitastigið.

Tölur Veðurstofu Japans benda hins vegar til þess að júlí nú hafi veri örlítið svalari en í fyrra, 0,02°C.

Bandaríska Haf- og loftslagsrannsóknastofnunin (NOAA) sem gerir einnig athuganir á meðalhita jarðar birtir sínar niðurstöður fyrir júlí á morgun.

Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastöðvar NASA sem heldur utan um hitastigsmælingar, sagði á Twitter að 77% líkur væru á því að árið í ár verði það annað hlýjasta frá upphafi mælinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×