UFC-goðsögnin og kvikmyndastjarnan Randy Couture þekkir bardagabransann vel en hann hefur afar litla trú á Conor McGregor í boxbardaganum gegn Floyd Mayweather.
„Ég myndi segja að Conor ætti svona 10 prósent möguleika á því að vinna Mayweather. Hann er örvhentur og mun ekki berjast eins og Floyd er vanur að menn berjist á móti honum,“ sagði Couture en hann er í heiðurshöll UFC og fyrrum hermaður.
„Conor er líka yngri og hærri. Það er jákvætt fyrir hann en þegar allt er talið er þetta boxbardagi á móti einum besta varnarboxara allra tíma.“
Couture barðist um titil sextán sinnum sem er met og hann er algjör goðsögn í UFC-heiminum. Hann hefur svo gert það gott í kvikmyndabransanum þar sem hann lék meðal annars í Expendables-myndunum hans Sylvester Stallone.
Bardagi Conors og Mayweather þann 26. ágúst verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Kaupa má áskrift á 365.is.
