„Þess vegna eigum við saman að hysja upp um okkur og láta hendur standa fram úr ermum við að afleggja þennan nítjandu-aldar sið. Það er grundvallaratriði að standa vörð um mannréttindi,“ skrifar Óttarr.
Hann segir að þolendur eigi alltaf að njóta vafans, bæði í regluverki og framkvæmd.
„Kerfin okkar og lagaumhverfi eru til þess að styðja við þá sem standa höllum fæti, eru veikari fyrir og þurfa aðstoð eða þjónustu. Þetta á að vera leiðarljós. Sögulega hefur því oft verið öfugt farið og þess sér ennþá merki hér og hvar í kerfunum okkar. Það þarf að skoða það sem úrskeiðis fer, læra af því, og umfram allt að ganga í að færa til betra horfs. Ég lít á þetta sem lykilverkefni í stjórnmálum og ábyrgðin er okkar allra.“
Uppákoman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd furðuleg
Hann bendir jafnframt á að Björt framtíð eigi ekki fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.„Uppákoman í nefndinni í gær virkar furðuleg. Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram . Það flækir og gerir erfitt fyrir því að ná saman um góð og bætt vinnubrögð. Ef ekki er þörf á að kynna sér mál í nefnd má óska eftir frávísun eða frestun.“
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fundaði í gær um reglur um uppreist æru, gekk út áður en meðmælabréf í máli Roberts Downey voru lögð fram í trúnaði. Fram hefur komið að dómsmálaráðherra hafi í hyggju að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um verulegar breytingar á þessu sviði.
Nefndin hefur haft þessi mál til umfjöllunar allt frá því að mál Roberts Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, komst í hámæli en honum var veitt uppreist æra undir lok síðasta árs.
Óttarr segir að stjórnmálamenn þurfi að vanda sig þegar þeir fjalli um viðkvæm mál.
„Mannréttindi eru ekki flokkspólitísk í eðli sínu heldur verkefni allra sem starfa í stjórnmálum. Það er margt ófullkomið og sumt getur verið erfitt í framkvæmd en það er engin afsökun fyrir því að ganga ekki til verks og ganga til góðs. Þá er borðleggjandi að leggja af þessar fáranlegu reglur sem gefa í skyn að æra sé eitthvað sem sé á færi opinbera aðila að möndla með eða reisa við.“