Mikið fjaðrafok varð þegar Milos sagði skilið við Víking í vor og var skömmu seinna ráðinn þjálfari Breiðabliks.
Föstudaginn 19. maí sendu Víkingar frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að Milos væri hættur þjálfun liðsins. „Ástæða starfslokanna er skoðanaágreiningur sem reyndist óyfirstíganlegur,“ sagði í fréttatilkynningunni. Seinna kom fram að Milos hefði lent saman við Hajrudin Cardakilja, markmannsþjálfara Víkings, eftir bikarleik gegn Haukum tveimur dögum áður.
Fljótlega eftir þetta var farið að orða Milos við Breiðablik sem var án þjálfara eftir að Arnar Grétarsson var látinn taka pokann sinn eftir aðeins tvær umferðir.

Daginn eftir leikinn, mánudaginn 22. maí, greindi Breiðablik frá því að Milos Milojevic væri nýr þjálfari liðsins.
Víkingar voru ekki par sáttir með Milos og sökuðu hann um að hafa hannað atburðarrás til að koma sér frá Fossvogsfélaginu.
„Þetta var mjög hönnuð atburðarrás. Það er alveg ljóst. Maður er svolítið pirraður yfir þessu,“ sagði Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við Vísi 23. maí.

Milos svaraði fyrir sig í samtali við Fótbolta.net og sagðist ekki hafa farið á bak við Víkingana.
„Það er sannleikur að ég hafði ekki heyrt frá Blikum og ég var á leiðinni til Serbíu. En svo kemur áhugi og ég er atvinnuþjálfari og fer þangað sem ég er velkominn," sagði Milos.
„Ég veit ekki hvort þeir vildu hafa þetta eins hjá nokkrum þjálfurum sem voru áður hjá þeim en luku ferlinum eftir að þeir hættu hjá Víkingi, Leifur Garðarsson og fleiri. Því þeir tala alltaf illa um fólk. Ég ber þessu fólki í Víkingi bara bestu orð, og félaginu líka og óska þeim alls hins besta. Það þarf að spyrja Halla hvort hann hafi verði heiðarlegur með öllu við mig. Ég er pottþétt ekki lyginn, það er 100%.“
Milos svór einnig af sér allar sakir í viðtalsþættinum 1 á 1 með Gumma Ben. Brot af viðtalinu má sjá hér að neðan.
Víkingur og Breiðablik eru í 6. og 7. sæti Pepsi-deildarinnar en aðeins einu stigi munar á liðunum. Það er því mikið undir í Kópavoginum í kvöld.
Leikur Víkings og Breiðabliks hefst klukkan 18:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.