Erlent

Besta myndin sem hefur náðst af fjarlægri stjörnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Samsett mynd sem sýnir yfirborð Antaresar.
Samsett mynd sem sýnir yfirborð Antaresar. ESO/K. Ohnaka
Hreyfingar í lofthjúpi fjarlægrar stjörnu eru greinanlegar í bestu mynd sem stjörnufræðingar hafa tekið af annarri stjörnu en sólinni. Myndin varpar nýju ljósi á hreyfingar efnis í stjörnum.

Stjarnan Antares í stjörnumerkinu Sporðdrekanum er stór en tiltölulega köld stjarna sem verður á endanum að sprengistjörnu, að því er segir í frétt á vef Evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO).

Hópur stjörnufræðinga náðu mynd af Antares sem er sú nákvæmasta til þessara af annarri stjörnu en sólinni okkar með því að sameina krafta nokkurra sjónauka, þar á meðal VLT-sjónauka ESO í Síle.

Bendir til áður óþekktrar virkni

Mælingarnar notuðu þeir til þess að kortleggja yfirborð stjörnunnar og mæla hreyfingar efnis á því. Komust þeir að raun um að þunnt en ólgandi gas náði mun lengra út frá stjörnunni en spár gerðu ráð fyrir.

Þessar hreyfingar eru ekki taldar vera af völdum svonefndra iðustrauma sem flytja geislun út frá kjarna margra stjarna. Stjörnufræðingarnir draga þess í stað þá ályktun að nýtt og óþekkt ferli gæti þurft til að útskýra hreyfingu gass í hjúpum svonefndra rauðra reginrisa eins og Antaresar.

„Í framtíðinni er hægt að beita þesari tækni á aðrar stjörnur til að rannsaka yfirborð þeirra og gashjúpa í einstökum smáatriðum. Hingað til hefur þetta aðeins átt við um sólina okkar,“ segir Keiichi Ohnaka, frá Kaþólska háskólanum í Norður-Síle sem fór fyrir verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×