Þorsteinn gagnrýnir þar þá sem „stilli móttöku flóttamanna og framlögum til velferðarkerfisins upp sem andstæðum“ og ali þannig á andúð í garð innflytjenda.
„Í hvert sinn sem málefni flóttamanna ber á góma rísa hér upp raddir sem gagnrýna að við séum að liðsinna fólki í neyð,“ skrifar Þorsteinn. „Gjarnan er þeim rökum beitt að valið standi milli þess að liðsinna flóttamönnum eða lyfta undir með fátækum Íslendingum með auknum framlögum til örorku- eða ellilífeyris. Eins og ekki sé hægt að gera bæði.“
Ráðherrann beinir orðum sínum meðal annars að nýjum stjórnmálaflokki sem hann segir nú að sækja í sig veðrið undir merkjum þessarar hugmyndafræði. Þorsteinn nefnir flokkinn ekki á nafn en gera má því skóna að hann eigi við Flokk fólksins, en fylgi hans hefur rokið upp í skoðanakönnunum að undanförnu. Formaður þess flokks, Inga Sæland, gagnrýndi Þorstein í viðtali við Vísi í sumar og sagði hann varla geta verið í tengslum við alþýðuna í landinu.
Þorsteinn segir í færslu sinni um 36 þúsund fleiri erlenda ríkisborgara hafa flutt til landsins en frá því á tímabilinu frá 1961 til 2016 og spyr hvernig okkur hefði gengið að sinna mikilvægum þjónustustörfum hér á landi án þeirra.
„Tökum þessa umræðu!“ skrifar Þorsteinn og vísar til þeirra sem gagnrýna móttöku flóttamanna, oft með yfirlýsingum um að það skorti kjark til að „taka umræðuna.“
Færslu ráðherrans í heild sinni má lesa hér að neðan.