Bjarni sagði að það væri hans skoðun að hér á landi þyrfti að endurheimta sterka ríkisstjórn. Sagði hann engar líkur á að slík stjórn fengist með fjölmarga smáflokka sem hefðu „engar rætur, enga sögu og engan strúktúr,“ eins og hann orðaði það.
„Ég held að dæmin séu til þess að læra af í þessum efnum. Ég hef í dag átt samtal við alla stjórnmálaleiðtoga á þingi, ekki alla en þá sem fara fyrir stærstu flokkunum og líkur væru til að ná saman við. Ég verð að sama skapi að segja að ég finn fyrir því að það er eins og ekkert hafi gerst í heilt ár. Við erum stödd á sama stað og eftir kosningarnar 2016 og við þær aðstæður er ekkert annað að gera en að hleypa kjósendum að. Því mun ég beita mér fyrir því að það verði kosið á Ísandi sem allra fyrst,“ sagði Bjarni.
Á meðan á blaðamannafundinum stóð barst fréttatilkynning frá embætti forseta Íslands. Þar sagði að forsetinn Guðni Th. Jóhannesson muni eiga fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í ljósi þess að stjórn Bjartrar framtíðar og þingflokkur Viðreisnar, samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, hafa lýst yfir að þessir tveir flokkar styðji ekki lengur það stjórnarsamstarf.
Fundurinn verður á Bessastöðum kl. 11:00 á morgun.