Eyjakonur byrjuðu tímabilið í Olís-deildinni af krafti með ellefu marka sigri gegn Fjölni í Dalhúsum í dag en eftir að hafa leitt með sjö mörkum í hálfleik fögnuðu gestirnir úr Vestmannaeyjum ellefu marka sigri 28-17.
Nýliðar Fjölnis fengu erfitt verkefni strax í fyrstu umferð þegar ÍBV kom í heimsókn en Eyjakonur náðu strax tökum á leiknum með öflugum varnarleik og leiddu 13-6 í hálfleik.
Þær héldu sömu tökum á leiknum í seinni hálfleik og bættu við forskot sitt en þetta endaði með sannfærandi ellefu marka sigri.
Karólína Bæhrenz og Ester Óskarsdóttir voru atkvæðamestar hjá ÍBV með sjö mörk hvor en í liði Fjölnis voru þær Andrea Jacobsen og Sara Margrét Rabasca Brynjarsdóttir markahæstar með fjögur mörk.
