Um 15 til 20 manns frá björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi komu að björgunaraðgerðunum í dag eftir að skriða féll neðan við bæinn Hamarssel í Hamarsfirði um klukkan ellefu í morgun. Jökull Fannar Helgason, stjórnarmaður í svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi, segir í samtali við Vísi að vel hafi gengið að koma kindunum undan skriðunni.
„Það féll þarna skriða um ellefuleytið í morgun, gríðarlega stór og kom niður úr giljum og yfir tún. Það varð eitthvað fé undir,“ segir Jökull Fannar en ekki er enn vitað hversu margar kindur urðu fyrir skriðunni.
„Þeir náðu að bjarga einhverjum 20 til 30 kindum.“

Miklar annir hafa verið hjá björgunarsveitum á Suðausturlandi í gær og í dag vegna gríðarlegra vatnavaxta og úrkomu á svæðinu. Jökull Fannar segist ekki muna eftir öðru eins votviðri.
„Það er náttúrulega bara allt gegnsósa af vatni. Ég veit um menn sem hafa búið í Hamarsfirði frá því fyrir 1970 og þeir hafa ekki séð annað eins.“
Talið er að tugir kinda hafi drepist þegar Jökulsá á Fljótsdal flæddi yfir bakka sína við Valþjófstaðanes eftir mikla úrkomu í gær. Þá voru á milli 20 og 25 bæir innlyksa vegna vatnavaxtanna laust eftir hádegi í dag.
Ekki er heldur útlit fyrir að hringvegurinn opni fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag en hann er lokaður við Hólmsá á Mýrum.
