Körfubolti

Mark Cuban lánaði leikmanni sínum Dallas-flugvélina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Cuban og J.J. Barea.
Mark Cuban og J.J. Barea. Vísir/Getty
Mark Cuban, eigandi NBA-liðsins Dallas Mavericks, hjálpaði einum leikmanni sínum og um leið allri Púertó Ríkó á mjög rausnarlegan hátt.

J.J. Barea, leikstjórnandi Dallas Mavericks, er frá Púertó Ríkó sem var mjög illa út þegar  fellibylurinn María gegn yfir Karíbahaf.

J.J. Barea fékk Dallas-flugvélina lánaða hjá Mark Cuban til að flytja mat og hjálpargögn til Púertó Ríkó. ESPN segir frá.

J.J. Barea fékk meira að segja að skrópa á fyrsta daginn í æfingabúðum Dallas Mavericks. Hann flaug út á mánudagskvöldið og kom aftur til Dallas í gær.

„Ég er virkilega stoltur af J.J., hversu fljótur hann að var að láta til sína taka og hversu mikið hann lagði á sig til að koma þessu í kring,“ sagði Mark Cuban við ESPN.

„Þetta er bara mál sem hann þurfti að ganga frá. Mark lét hann hafa flugvélina okkar og þeir fylltu hana af allskonar hlutum og hjálpargögnum,“ sagði Rick Carlisle, þjálfari Dallas liðsins og bætti við:

„Hann ætlar að koma með mömmu sína og ömmu með sér til baka. Ég veit hinsvegar ekki betur en að pabbi hans ætli að taka slaginn og hjálpa til við að koma öllu á réttan kjöl út í Púertó Ríkó,“ sagði Carlisle.

J.J. Barea er eini núverandi leikmaður NBA-deildarinnar sem er fæddur í Púertó Ríkó og hann náði engu sambandi við foreldra sína fyrr en á sunnudaginn var.

J.J. Barea og eiginkona hans, Viviana Ortiz, leikkona og módel frá Púertó Ríkó, hélt söfnun á netinu sem hefur safnað meira en 140 þúsund dollurum eða fimmtán milljónum íslenskra króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×