
Fornminjasjóður styrkir fornleifaskráningu, uppgröft, úrvinnslu rannsókna, varðveislu og viðhald minja, báta og skipa og miðlun þekkingar á sviði fornminja á Íslandi. Þessar 45 miljónir eiga að duga til þessarar vinnu á næsta ári.
Íslenskar fornleifarannsóknir síðustu ára hafa að miklu leyti snúist um að verja fornleifar og kanna landsvæði áður en þau fara undir mannvirki. Til að mynda fundust afar áhugaverð bátskuml á Dysnesi í Eyjafirði í sumar í rannsókn sem var hluti af umhverfismati stórskipahafnar á Dysnesi.
„ Afar fáar fastar stöður eru í boði fyrir fornleifafræðinga á Íslandi og því er fornminjasjóður mjög mikilvægur sjálfstætt starfandi fornleifafræðingum og starfsumhverfi þeirra, ekki síður en þeim sem vinna við fornleifarannsóknir í föstum stöðum,“ segir Sólrún Inga.
Aðeins lítill hluti þeirra sem sækja um rannsóknarstyrki í fornminjasjóð hljóta styrki til verkefna. Að mati Sólrúnar Ingu virðist það vera sem svo að vísindamenn séu að gefast upp á að sækja um í sjóðinn því líkurnar á að hljóta styrk séu ekki nægilega miklar. Tímafrekt er að útbúa umsókn í vísindasjóði.
„Fornleifarannsóknir skapa þekkingu um land og þjóð og þessi þekking nýtist á mörgum sviðum í samfélaginu. Hún er mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, kennslu í skólum, og til að styrkja sjálfsmynd samfélags og einstaklinga svo eitthvað sé nefnt,“ bætir Sólrún Inga við.