Utanríkisráðherra Norður-Kóreu fullyrti í dag að landið hefði rétt á að skjóta niður bandarískar herflugvélar jafnvel þó að þær séu ekki í lofthelgi þess. Hótanir Bandaríkjaforseta í garð ríkisins séu jafngildi stríðsyfirlýsingar.
„Allur heimurnin ætti að muna skýrt að Bandaríkin voru fyrst til að lýsa yfir stríði,“ sagði Ri Yong Ho og vísaði til orða Donalds Trump á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku þar sem hann hótaði að gjöreyða Norður-Kóreu.
Í ljósi þeirrar stríðsyfirlýsingar áskildi Ri Norður-Kóreu rétt til að skjóta niður bandarískar sprengjuflugvélar, að því er segir í frétt Washington Post.
Spennan á Kóreuskaga hefur stigmagnast síðustu vikur með gífuryrðum sem hafa gengið á víxl á milli Trump og leiðtoga Norður-Kóreu. Ástæðan eru endurteknar tilraunir stjórnvalda í Pjongjang með kjarnavopn og langdrægar eldflaugar.
Ri hefur sagt að Norður-Kóreumenn séu tilbúnir að prófa vetnissprengju yfir Kyrrahafi. Á föstudag sagði hann jafnframt óumflýjanlegt að Norður-Kóreumenn myndu skjóta eldflaugum á Bandaríkin vegna vanvirðingar Trump og Kim Jong-un, leiðtoga landsins.
Kim kallaði Trump „andlega sturlaðan“ eftir ummæli þess síðarnefnda á allsherjarþinginu í síðustu viku.
