
Á leiðinni verða marglitar hænur á vegi okkar, þær skjótast undir runna en eiga heima í sætum kofa undir kletti. Í gilinu er hvammur með nokkrum ávaxtatrjám og þar er líka bergvatnsá sem Hraundís segir mikið búið að sullast í.
„Manninum mínum sem ólst upp hér á bænum var stranglega bannað að leika sér í gilinu. En ég fór þá leið að leika mér þar sjálf með krökkunum okkar og þannig lærðu þau á það.“

Þau eiga fjögur börn samtals og tvö barnabörn. Þrjú elstu börnin eru í borginni við nám og störf en það yngsta á Akranesi í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Það er dóttirin Hekla. Sem leiðir hugann að nafninu Hraundís sem er sjaldgæft. „Ég bar það ein í 36 ár en nú erum við orðnar þrjár,“ segir húsfreyjan brosandi.

Flugurnar eru á fullu að búa sig undir veturinn, ná sér í efni úr trjáberki til að loka öllum glufum á búunum. Nokkrar humlur eru á sveimi og freista inngöngu en er hent út um leið. „Það eru varnarflugur innan við, tilbúnar að verja búin ef einhver kemur óboðinn,“ bendir Hraundís á og segir humlurnar eiga sér bú til að liggja í dvala í í vetur.
Allt í einu birtist stór og loðin kisa, svört og hvít, önnur tveggja á heimilinu, að sögn húsfreyjunnar. „Við erum líka stundum með tvö svín á sumrin í túninu, það er mun betri matur af frjálsum svínum en hinum og þau eru líka einstaklega skemmtilegar skepnur,“ segir hún.
Þau hjón hafa alltaf stundað vinnu utan heimilis, að sögn Hraundísar, þó áttu þau fáeinar kindur til að byrja með og byrjuðu í skógrækt 2001. „Við erum að gróðursetja í 135 hektara land og erum langt komin með það. Það fara 19.000 plöntur niður þetta árið.“

Í gamla mjólkurhúsinu á bænum er Hraundís með 420 lítra pott sem hún eimar jurtirnar í. „Eimingin gerist með gufu sem leidd er í pottinn og leysir olíuna úr plöntunum, hún flýtur ofan á og endar í litlum skiljara utan á pottinum. Þar tappa ég vatni undan þeim,“ lýsir hún.
Segir barrtrén gjöfulust af olíu enda eimi hún átta tegundir. „Það er mismunandi eftir plöntum, veðri og vindum hversu mikil olía er í þeim, jurtir eru dyntóttar eins og veðrið. Ég eimaði til dæmis stútfullan pott af vallhumli um daginn og fékk bara ellefu millilítra af olíu. Birkið gefur líka voða lítið, því miður, en það er æðisleg olía. Ég yrði bara að selja hana svo dýrt af því ég fæ svo lítið. Ilmurinn af olíunum er ólíkur eftir tegundum og líka virknin.“
Næst er það skógarferð í jeppanum. Hundarnir eru fyrstir upp í bílinn. „Passið ykkur á gaddavírnum, ég er búin að skemma marga flík á honum,“ segir Hraundís aðvarandi þegar við komum á staðinn. Hún er sjálf nýbúin að fjárfesta í nettri keðjusög og buxum sem hún segir ekki hægt að saga í gegnum. „Þær voru heldur ekki ódýrar,“ tekur hún fram, kankvís.
Hlíðin er alsett trjágróðri á mismunandi skeiði. Við erum í lundi frá 2006 og Hraundís vígir þar nýju sögina, alsæl, því hingað til hefur hún látið litla handsög duga.

„Ég er í hálfu starfi sem skógræktarráðgjafi og það var eins gott að þið komuð ekki á morgun því þá hefði ég verið farin í Dalina. Þar er mikil skógrækt og ég er oft þar á þessum árstíma.“ Sem sagt alltaf sívinnandi? „Ég þarf að minnsta kosti ekki að láta mér leiðast,“ segir hún brosandi. „En reyni samt að taka því rólega í svartasta skammdeginu. Á þeim tíma á maður heldur ekki að kvista tré.“