Erlent

Gassprengingar skóku höfuðborg Gana

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmaður dælir vatni á tankbíl í jarðgasstöðinni þar sem sprengingar urðu í gærkvöldi.
Slökkviliðsmaður dælir vatni á tankbíl í jarðgasstöðinni þar sem sprengingar urðu í gærkvöldi. Vísir/AFP
Að minnsta kostir þrír létust í miklum gassprengingum í eldsneytisbirgðastöð sem skóku Accra, höfuðborg Gana í gærkvöldi. Fregnir herma að fyrsta sprengingin hafi orðið þegar eldur kom upp í flutningabíl sem var að flytja jarðgas.

Fyrsta sprengingin átti sér stað í jarðgasstöð í eigu ríksins kl. 19:30 að staðartíma, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Hún leiddi til frekari sprenginga í bensínstöð handan götunnar í norðausturhluta borgarinnar.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC myndaðist gríðarlegt eldhaf í sprengingunum og flúðu íbúar í grenndinni í dauðans ofboði. Margir þeirra voru námsmenn við Háskólann í Gana í nágreninu.

BBC segir að þrír hafi farist og að minnsta kosti þrjátíu til viðbótar hafi slasast. Reuters segir hins vegar að óljóst sé hversu margir hafi farist. Vitni hafi sagst hafa talið fjögur eða fimm lík.

Yfirvöld ætluðu að birta opinberar tölur um mannskaða nú í morgun.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×