Einar Guðbjartsson, 66 ára íbúi á Akureyri, varð fyrir því óláni að tvílærbrotna í sumar. Hann var fluttur eftir aðgerð á öldrunarheimilið Hornbrekku í Ólafsfirði fjarri sínum nánustu og hefur engin tengsl við Ólafsfjörð.

„Það svo sem fer ágætlega um mig hér og ekkert við starfsfólkið hér að sakast. Það eru hins vegar bara fífl í þessari bæjarstjórn á Akureyri sem vilja frekar byggja rennibrautir en að byggja upp þjónustu í heilbrigðismálum.“
Ingvar Þóroddsson segir eina ástæðu þess að sjúklingar séu fluttir í aðrar stofnanir utan Akureyrar sé plássleysi á Akureyri.
„Þegar einstaklingar eru í bið eftir því að komast í endurhæfingu og þurfa því að liggja lengi á hjúkrunarheimili er reynt eftir fremsta megni að hafa þá sem næst heimili sínu.
Hins vegar gerist það að sjúklingar eru fluttir annað. Það er í sjálfu sér betra fyrir þá að vera í hjúkrunarrými en á bráðadeild þar sem erillinn er mikill,“ segir Ingvar. „Það væri auðvitað æskilegra ef hægt væri að setja upp fleiri legurými á Akureyri fyrir þennan hóp.“
Halldór Guðmundsson, forstöðumaður Öldrunarheimila Akureyrar, segir ekki skort á dvalarrýmum. „Í raun gæti það verið að það séu of mörg hjúkrunarrými. Við þurfum heilsteypta samfellu í þjónustu fyrir þennan hóp frekar en aukna steinsteypu. Til að mynda er alltaf hópur sem á einhverjum tímapunkti þurfti á dvalarrými að halda en þarf það ekki í dag,“ segir Halldór.
Einar er nú á Ólafsfirði og má ekki stíga í fótinn fyrr en í fyrsta lagi í desembermánuði. Endurhæfing hans mun fara fram á Kristnesi í Eyjafirði og því er nokkur tími þar til Einar kemst til síns heima á Akureyri.