Fótbolti

Tolisso skaut Bayern upp að hlið Dortmund

Tolisso fagnar sigurmarkinu ásamt Robben sem bar fyrirliðabandið í dag.
Tolisso fagnar sigurmarkinu ásamt Robben sem bar fyrirliðabandið í dag. Vísir/getty
Bæjarar unnu annan leik sinn í röð í þýsku deildinni undir stjórn Jupp Heynckes í lokaleik dagsins í Þýskalandi en 1-0 sigurinn var full tæpur þrátt fyrir að leika stærstan hluta leiksins manni fleiri gegn Hamburger SV.

Bayern tókst með því að komast upp að hlið Dortmund eftir að Dortmund mistókst að taka þrjú stig gegn Frankfurt fyrr í dag.

Staðan var markalaus í hálfleik en Gideon Jung í liði Hamburger var vikið af velli á 38. mínútu leiksins með beint rautt spjald.

Thomas Müller kom inn sem varamaður í seinni hálfleik og lagði hann upp sigurmarkið fyrir franska landsliðsmanninn Corentin Tolisso.

Var þetta annað mark Tolisso í treyju þýsku meistaranna eftir félagsskipti frá Lyon í sumar.

Bæjarar fengu fjölmörg færi til að bæta við marki án árangurs og voru leikmenn liðsins full værukærir á tímum en það kom ekki að sök, mark Tolisso dugði liðinu til sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×