Alexandra Jóhannsdóttir skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Breiðablik.
Alexandra, sem er 17 ára miðjumaður, er einn efnilegasti leikmaður landsins.
Þrátt fyrir ungan aldur á hún að baki 41 leik fyrir Hauka í deild og bikar. Alexandra lék 16 leiki fyrir Hauka í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili og skoraði tvö mörk.
Alexandra hefur leikið fjóra leiki fyrir U-19 ára landslið Íslands og hefur leikið 25 leiki og skorað 10 mörk fyrir U-17 ára landsliðið.
Alexandra er annar Hafnfirðingurinn sem Blikar næla í eftir að tímabilinu lauk en í síðustu viku gekk Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í raðir Breiðabliks frá FH.
Breiðablik endaði í 2. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili.
