Erlent

„Brexit er að verða að veruleika“

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
May taldi réttast að dagsetning Brexit skyldi höfð á forsíðu frumvarpsins.
May taldi réttast að dagsetning Brexit skyldi höfð á forsíðu frumvarpsins. Vísir/AFP
Dagsetning og nákvæm tímasetning útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu mun verða lögfest. Þetta hafa stjórnvöld staðfest en BBC greinir frá.

Dagsetningin hefur reyndar legið fyrir frá því ákvörðunin um útgöngu var tekin en hún er 29. mars 2019 klukkan 23 að kvöldi til. Mun frumvarp til útgöngu Bretlands úr ESB innihalda ákvæði um þennan nákvæma tímapunkt.

Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur hvatt þingflokka til þess að kanna frumvarpið vel en varaði þá jafnframt við að tefja þinglega meðferð þess.

Ekki eru allir sammála um hvort um seinan væri fyrir Bretland að skipta um skoðun og afturkalla áform sín um útgöngu, ef vilji væri fyrir hendi. Kerr lávarður, sem er höfundur hins margumrædda 50. ákvæði Lissabonsáttmálans um útgöngu úr ESB, hefur til að mynda fullyrt að aðildarríki geti skipt um skoðun hvenær sem er í ferlinu.

Talsmenn Brexit telja hins vegar að með því að lögfesta dagsetninguna sé allur vafi tekinn þar af.

„Ákvæðið sýnir það svart á hvítu að Bretland mun ganga út úr ESB klukkan 23 þann 29. mars 2019,“ sagði David Davis en hann er ráðherra málefna er tengjast Brexit.

May ákvað að nákvæm dagsetning útgöngunnar skyldi rituð á forsíðu frumvarpsins. Hún sagði í samtali við the Telegraph að ástæðan fyrir þeirri ákvörðun væri að sýna fram á eindreginn vilja ríkisstjórnarinnar til útgöngu.

„Við leyfum engum að efast um staðfestu okkar. Brexit er að verða að veruleika,“ sagði May.  


Tengdar fréttir

Bretar muni sjá eftir Brexit

Bretar munu sjá eftir því að yfirgefa Evrópusambandið. Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á Evrópuþinginu í gær.

Brexit-viðræður halda áfram í Brussel

Ráðherra Brexit-mála í Bretlandi segist vilja víkka samræðurnar og hefja viðræður um hvernig haga skuli milliríkjaviðskiptum milli aðila eftir útgöngu Breta.

Fv. aðstoðarmaður Brexit-ráðherra: Brexit verður hörmung fyrir Bretland

Ímynd Íhaldsflokksins á Bretlandi hefur beðið svo mikla hnekki vegna Brexit að hann mun aldrei vinna sigur í kosningum aftur. Þetta er mat fyrrverandi starfsmannastjóra Brexit-ráðherra ríkisstjórnarinnar sem telur útgönguna úr Evrópusambandinu verða „hörmung“ fyrir Bretland,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×