„Krónprinsinn benti á að það að Íransstjórn sjái Hútum fyrir eldflaugum sé álitið bein hernaðaraðgerð Íransstjórnar og mögulega stríðsyfirlýsing gegn konungsríkinu,“ segir í yfirlýsingu sem ríkisstjórn Sádi-Arabíu sendi frá sér í gær.

Fjölmiðlar sem eru á bandi Húta greindu frá því á laugardag að uppreisnarmennirnir hefðu skotið eldflaug af gerðinni Burkan H2 að alþjóðaflugvelli Khaleds konungs fyrir utan sádiarabísku höfuðborgina Riyadh. Sádi-Arabar náðu að skjóta eldflaugina niður og enginn fórst í árásinni. Mannréttindabaráttusamtökin Human Rights Watch sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar árásarinnar sem í sagði að hún væri stríðsglæpur og beindist nær eingöngu gegn almennum borgurum.

„Ítök Írana á svæðinu ógna öryggi nágrannaríkjanna og heimsbyggðarinnar allrar,“ sagði al-Jubeir enn fremur.
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, gefur lítið fyrir ásakanir al-Jubeir. „Sádi-Arabar sprengja Jemen í tætlur. Þeir drepa þúsundir saklausra borgara, meðal annars ungbörn, valda kóleru og hungursneyð en kenna Írönum auðvitað um allt saman,“ tísti Zarif.
Eldflaugaskotið er ekki eina atvikið sem nú veldur titringi í heimshlutanum. Afsögn Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons, á laugardag er einnig til þess fallin að kynda undir í þessu kalda stríði.
„Íran stýrir þessu svæði og ákvarðanatöku bæði í Sýrlandi og Írak. Ég vil segja Írönum og fylgjendum þeirra að þeir munu tapa í valdabaráttu sinni innan Arabaríkjanna,“ sagði al-Hariri í ávarpi þar sem hann tilkynnti um afsögnina.

Lyse Doucet, yfirumsjónarmaður erlendra frétta hjá BBC, greinir frá því að í samtölum sínum við ónefndan líbanskan ráðherra hafi ráðherrann sagt að orðalagið í ávarpi al-Hariri hafi ekki verið hans eigið. Í umfjöllun BBC kemur fram að heimildir miðilsins hermi að Sádi-Arabar hafi verið orðnir þreyttir á árangursleysi baráttu al-Hariri við Hezbollah. Kornið sem fyllti mælinn hafi verið fundur al-Hariri á föstudag með Ali Akbar Velayati, ráðgjafa Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerks Írans.