Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir málaflokkinn hafa verið ræddan á fundi flokkanna í Reykjavík í gær.
Mynda nýja ríkisstjórn vegna þolenda
Í stöðuuppfærslu, sem birt var á Facebook-reikningi Druslugöngunnar í gær, eru þeir stjórnmálamenn sem standa nú að stjórnarmyndunarviðræðum beðnir að gleyma ekki þætti þolenda kynferðisofbeldis í falli síðustu ríkisstjórnar.
„Getum við byrjað á því að vera sammála um að þörf sé á betra samfélagi fyrir þolendur ofbeldis og að krafan um bætta stöðu brotaþola kynferðisofbeldis hafi komið ykkur í þá stöðu sem þið eruð í í dag, að mynda nýja ríkisstjórn aðeins einu ári eftir síðustu tilraun,“ ritar Druslugangan sem minnir leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna enn fremur á að nýafstaðin kosningabarátta þeirra hafi að miklu leyti verið byggð á stuðningsyfirlýsingum með þolendum ofbeldis.
Sjá einnig: Fólkið sem felldi ríkisstjórnina: Málinu er ekki lokið

Nú vilja forsvarsmenn Druslugöngunnar því sjá kosningaloforðunum framfylgt.
„Stafrænt kynferðisofbeldi er raunveruleg ógn sem hefur engu léttvægari afleiðingar en annars lags kynferðisofbeldi. Stafrænt kynferðisofbeldi er ekki nýtt af nálinni en hefur þess konar málum fjölgað gríðarlega á síðustu árum og er nauðsynlegt að lögin séu í stakk búin að taka á þeim,“ ritar Druslugangan.
Þá segir í stöðuuppfærslunni að fráfarandi ríkisstjórn hafi sammælst um að nauðsynlegt væri að skilgreina stafrænt kynferðisofbeldi í lögum. Stjórnarflokkurinn Björt framtíð, sem náði ekki inn á þing í nýafstöðnum alþingiskosningum, beitti sér einna helst í málaflokknum. Druslugangan skorar því á nýtt þing, og mögulega ríkisstjórn, að axla ábyrgðina á málefnum þolenda ofbeldis.
„Nú er sá stjórnmálaflokkur sem fór af stað með frumvarp, um skilgreiningu stafræns kynferðisofbeldis í lögum, horfinn af þingi og ábyrgðin er ykkar að taka við keflinu. Druslugangan skorar á ykkur að gera þetta að því málefni sem sameinar ykkur, koma því í stjórnarsáttmálann og fylgja því eftir.“

Helga Vala Helgadóttir, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar – sem einmitt er einn aðildarflokka stjórnarmyndunarviðræðna, þakkar Druslugöngunni fyrir innleggið í athugasemd við færsluna. „Takk!“ ritar Helga Vala, sem segir stjórnarmyndunarflokkana nú þegar hafa rætt stafrænt kynferðisofbeldi sín á milli.
„Við funduðum í borginni í dag og þetta er komið til skila!“
Þá tekur Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í sama streng og Helga Vala og þakkar Druslugöngunni fyrir stöðuuppfærsluna.
Druslugangan hefur verið gengin að sumarlagi í Reykjavík síðan 2011 og þá hafa aðrir landshlutar einnig blásið til Drusluganga. Yfirlýst markmið göngunnar er m.a. að stuðla að valdeflingu þolenda kynferðisofbeldis og leggja áherslu á ábyrgð gerenda á ofbeldinu. Þá var stafrænt kynferðisofbeldi tekið sérstaklega fyrir í göngunni í ár.
Stöðuuppfærslu Druslugöngunnar má lesa í heild sinni hér að neðan.