Erindrekar Bandaríkjanna og Norður-Kóreu ræða enn saman á bak við tjöldin þrátt fyrir að Donald Trump forseti hafi fullyrt að slíkar viðræður séu tímasóun. Samskiptin eru sögð fara fram í gegnum sendinefnd Norður-Kóreu við Sameinuðu þjóðirnar í New York.
Samskipti Norður-Kóreu við umheiminn og Bandaríkin sérstaklega hafa verið þrungin spennu í ljósi endurtekinna kjarnorku- og eldflaugatilrauna einræðisríkisins. Trump hefur hellt olíu á eldinn með óvenju digurbarkalegum hótunum um að gjöreyða Norður-Kóreu.
Reuters-fréttastofan hefur eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni bandaríska utanríkisráðuneytisins að Joseph Yun, samningamaður Bandaríkjanna, hafi verið í samskiptum við norður-kóresku sendinefndina í New York. Yun hefur meðal annars hvatt viðmælendur sína um að hætta tilraunum með kjarnorkusprengjur og eldflaugar.
Eftir að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að viðræður við fulltrúa Norður-Kóreu héldu áfram „þar til fyrstu sprengjurnar falla“ um miðjan október tísti Trump að hann væri að sóa tíma sínum með því að ræða við stjórnvöld í Pjongjang.
Það virðast hins vegar hafa verið orðin tóm. Heimildarmaður Reuters hjá utanríkisráðuneytinu segir að hvorki tíðni né umfang þessara þreifinga á milli diplómata þjóðanna tveggja hafi minnkað.
Reuters segir að engu síður bendi ekkert til þess að viðræðurnar hafi bætt samskipti ríkjanna fram að þessu.
Bandarísk og norður-kóresk stjórnvöld ræða enn saman þrátt fyrir Trump

Tengdar fréttir

„Afsakið en aðeins eitt mun virka“
Enn harðnar Kóreudeilan. Ummæli forseta Bandaríkjanna vekja spurningar.

Segir viðræður við Norður-Kóreu vera tímaeyðslu
Donald Trump hefur sagt Rex Tillerson að hann sé að eyða tíma sínum með að reyna að semja við "litla eldflugamanninn.“