Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, telur ólíklegt að einhver formannanna þriggja, það er að annað hvort hún, formaður Framsóknarflokksins eða formaður Sjálfstæðisflokksins, fari til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag og fái umboð til stjórnarmyndunar.
Þetta sagði hún við Heimi Má Pétursson, fréttamann Stöðvar 2, að loknum þingflokksfundi Vinstri grænna í morgun.
Katrín sagði jafnframt að enn væri verið að stilla upp þeim málefnum sem flokkarnir þrír geta komið sér saman um og ítrekaði að hún væri reiðubúin til að leiða viðræður flokkanna ef af þeim verður.
Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu einnig í morgun um stöðuna í óformlegum þreifingum flokkanna um myndun ríkisstjórnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, að það ætti að skýrast í dag hvort farið verði í formlegar viðræður en eftir fundinn sagði hann að það ætti að koma í ljós á næstu dögum.
