Erlent

Heilsuávinningur af kaffidrykkju meiri en skaði

Þórdís Valsdóttir skrifar
Ef drukkið er þrjá til fjóra kaffibolla á dag getur það haft góð áhrif á heilsuna.
Ef drukkið er þrjá til fjóra kaffibolla á dag getur það haft góð áhrif á heilsuna. Vísir/getty
Ný rannsókn sýnir að kaffidrykkja í hóflegu magni kann að hafa góð áhrif á heilsu manna. Í nýrri rannsókn sem birt var í læknablaðinu The British Medical Journal kemur fram að heilsuávinningur af kaffidrykkju sé meiri en skaðsemi hennar.

Samkvæmt rannsókninni getur kaffidrykkja minnkað líkur á fjölmörgum sjúkdómum, þar á meðal sykursýki 2 og Alzheimer. Rannsóknin sýnir einnig að þeir sem drekka þrjá til fjóra kaffibolla á dag eru í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma heldur en þeir sem drekka ekkert kaffi. Ef kaffibollarnir eru fleiri en fjórir á dag hefur það minni heilsuávinning, en er þó ekki skaðlegt.

Kaffi var áður flokkað sem krabbameinsvaldur, en engar sannanir eru taldar vera fyrir því. Þó er talið fólk sem drekki mjög heitt kaffi eða te sé líklegri til að fá krabbamein í vélinda en annað fólk.

Í rannsókninni segir að margir setji sykur í kaffið og einnig að tengsl séu á milli kaffidrykkju og sætabrauðs. Neysla sykurs getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks og er tengd við fjölda sjúkdóma.

Robin Poole höfundur rannsóknarinnar segir að rannsóknin snúist aðallega um kaffidrykkju.

„Hún snýst ekki um sykur, sýróp, kex, kökur og sætabrauð. Viðurkennd heilsuviðmið eiga enn við um þessar fæðutegundir. Með öðrum orðum, ef þú drekkur kaffi, njóttu þess, en reyndu að gera það eins heilsusamlega og hægt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×