Sænskum Evrópumeistara nauðgað eftir frjálsíþróttamót
Tómas Þór Þórðarson skrifar
Moa Hjelmer varð Evrópumeistari árið 2012, ári eftir að henni var nauðgað.vísir/getty
Sænsku frjálsíþróttakonunni Moa Hjelmer var nauðgað af öðrum íþróttamanni eftir frjálsíþróttamót í Svíþjóð fyrir sex árum síðan. Hún segir sjálf frá þessu í færslu á Instagram.
Hjelmer, sem þá var 21 árs gömul, var að keppa á Finnkampen sem er árleg frjálsíþróttakeppni á milli Finnlands og Svíþjóðar. Að henni lokinni var fagnað og í lok kvölds fór hún með íþróttamanninum upp á herbergi þar sem að hann nauðgaði henni.
„Ég var búinn að drekka aðeins of mikið áfengi og hann elti mig upp á hótel. Við enduðum saman inn í herberginu hans þar sem hann vill sitja nálægt mér og tala við mig. Ég sagðist vilja fara að sofa en hann vildi að ég myndi sofa hjá honum,“ segir Hjelmer.
Sú sænska segir að einstaklingurinn hafi verið maður sem að hún treysti en þegar að á hólminn var komið virti hann ekki neitun hennar.
„Hann byrjaði að snerta mig en ég sagðist ekki vilja þetta. Ég sagði nei aftur og þá afklæddi hann mig. Ég fraus eins og klaki og gat ekki hreyft mig. Ég sagði ekkert meira og hann nauðgaði mér,“ segir Hjelmer.
Hjelmer merkti færsluna með kassamerkjunum #MeToo og #Timeout en bæði eru herferðir þar sem konur út um allan heim segja frá kynferðisbrotum í sinn garð.
„Ég hef alltaf verið sterk og með mikið sjálfstraust og ég veit í dag að þetta var ekki mér að kenna. Það tók mig samt sex ár að þora að segja frá þessu,“ segir Moa Hjelmer.
Hjelmer varð Evrópumeistari í 400 metra hlaupi, ári eftir nauðgunina, í Helsinki árið 2012 og vann svo brons í sömu grein á EM innanhúss í Gautaborg ári síðar.