Talið er að verslunarfyrirtækið Market ehf., sem rekur pólskar smávöruverslanir undir nafninu Euro Market í Hamraborg 9, Stakkholti 2b og Smiðjuvegi 2, tengist umfangsmiklu máli alþjóðlegs glæpahrings sem teygir anga sína til Íslands, Póllands og Hollands og greint var frá á blaðamannafundi í gær. Farið var í húsleitir í verslunum fyrirtækisins og eignir haldlagðar. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Líkt og fram kom á blaðamannafundi lögreglu í gær er málið gríðarlega umfangsmikið; snýst um innflutning og sölu á fíkniefnum, en einnig um fjársvik og peningaþvætti. Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol, sagði í gær að þær eignir og reiðufé sem lagt var hald á í aðgerðunum hér á Íslandi séu samtals að virði um 200 milljónir íslenskra króna. Þá segir hann í samtali við blaðið að götuverðmæti eiturlyfjanna sem um ræðir slagi hátt í hálfan milljarð.
Eigendur Market ehf. eru Arkadiusz Niescier og Arkadiusz Maciej Latkowski.
Alls komu um 90 starfsmenn lögreglunnar og tollayfirvalda að aðgerðum hér á landi en farið var í samhæfðar aðgerðir á Íslandi, í Póllandi og Hollandi þann 12. desember síðastliðinn klukkan sex um morguninn. Fimm Pólverjar voru handteknir hér á landi, en þeir hafa búið á Íslandi um hríð.
Karl Steinar sagði í samtali við blaðið málið allt saman skýrasta dæmið um fjölþætta brotastarfsemi sem Íslendingar hafi staðið frammi fyrir.
Samkvæmt nýjasta ársreikningi Market ehf. jókst velta félagsins umtalsvert á milli ára, en hún var tæplega 250 milljónir króna árið 2015 en tæplega hálfur milljarður árið 2016.
