Körfubolti

Skrautleg þrenna skilaði Russell Westbrook meti í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Russell Westbrook hjá Oklahoma City Thunder hefur safnað þrennunum í NBA-deildinni á árinu 2017 og nú er svo komið að enginn leikmaður í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta hefur náð fleiri þrennum á einu almanaksári.

Westbrook náði 35. þrennunni á árinu 2017 í nótt og var hún af skrautlegri gerðinni. Hann hitti nefnilega aðeins úr 3 af 17 skotum sínum í þessum leik á móti Indiana Pacers en endaði með 10 stig, 12 stoðsendingar og 17 fráköst.





Þetta var 88. þrennan hans Westbrook  á ferlinum en með því að ná 35 þrennunni á almanaksárinu 2017 þá bætti hann met Oscar Robertson.

Oscar Robertson var með 34 þrennur á árinu 1961 og var því búinn að eiga metið í 56 ár. Robertson vissi reyndar ekkert af því þegar hann spilaði enda varð þrennan ekki til fyrr en á níunda áratugnum eða þegar Oscar var löngu hættur að spila.







Russell Westbrook er ekki með þrennu að meðaltali á þessu tímabili eins og því síðasta en hann er með 23,0 stig, 9,8 stoðsendingar og 9,1 frákast í leik. Á síðasta tímabili, þegar hann var kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar þá var hann með 31,6 stig, 10,7 fráköst og 10,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Westbrook hefur náð þremur þrennum í síðustu fimm leikjum og virðist ætla að enda árið í miklu þrennustuði. Það má því búast að hann bæti metið eitthvað út desember.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×