Hildur Dís Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttökunni, telur að aukin umræða um málaflokkinn hafi áhrif á þróunina.
Árið 1993, þegar Neyðarmóttakan fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum var stofnuð leituðu 43 þolendur kynferðisofbeldis þangað. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt og hvað mest síðustu ár.
Árið 2014 leituðu 123 sér aðstoðar á Neyðarmóttökuni og 50 lögðu fram kæru. Árið 2015 komu 133 á neyðarmóttökuna og 62 kærðu málið til lögreglu.
Í fyrra voru svo 169 komur skráðar og voru 68 mál kærð til lögreglu.
Nú þegar tveir dagar eru eftir af árinu hafa 187 einstaklingar leitað á Neyðarmóttökuna en það eru fleiri en nokkru sinni fyrr. Hildur Dís telur að nokkrir samverkandi þættir hafi áhrif á þróunina.
„Ég held að það sé í raun bara aukin umræða í þjóðfélaginu um þennan málaflokk. Eins líka kannski að fólk viti betur hvert það eigi að leita og geti þá frekar komið til okkar,“ segir Hildur Dís.
Að meðaltali sextán á mánuði
Í ár hafa komur á Neyðarmóttökuna verið að meðaltali sextán á mánuði og hefur þeim fjölgað um tíu prósent frá því í fyrra.Hildur bendir á að komurnar séu jafnt og þétt yfir allt árið. „Kannski minnst sem eru að koma á milli átta og fjögur á dagvinnutíma en þetta er allur sólarhringurinn allan ársins hring. Sumir mánuðir eru minni. Sumir eru stærri. Það fer bara svolítið eftir því hvað er í gangi í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Þetta eru konur í meirihluta, 18-35 ára,“ segir Hildur.
Ekki er búið að taka það saman hve margir af þeim 187 einstaklingum sem leituðu til Neyðarmóttökunnar í ár hafa kært málin til lögreglu. „En það er minnihluti mála sem fara alla leið í kæru en lögreglan hefur aftur á móti aðkomu að mörgum málum,“ segir Hildur Dís.