Körfubolti

Spá því að Tryggvi verði valinn númer 56 í nýliðavalinu á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi í leik með íslenska landsliðinu á EM í Finnlandi.
Tryggvi í leik með íslenska landsliðinu á EM í Finnlandi. vísir/ernir
Íþróttavefsíðan Bleacher Report spáir því að Tryggvi Snær Hlinason verði valinn númer 56 í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfubolta á næsta ári.

Tryggvi er á radarnum hjá liðum í NBA eftir frábæra frammistöðu með íslenska U-20 árs landsliðinu á EM í sumar. Hann var m.a. með hæsta framlagið af öllum leikmönnum eftir riðlakeppnina og var svo valinn í úrvalslið mótsins.

Sérfræðingar um nývalið í NBA á borð við Mike Schmitz og Jonathan Givony hafa skrifað um Tryggva og telja líklegt að hann verði valinn í nýliðavalinu 2018.

Samkvæmt tilbúningsnýliðavali Bleacher Report verður Tryggvi valinn með valrétti númer 56 í nýliðavalinu á næsta ári. Eins og staðan er núna tilheyrir sá valréttur Charlotte Hornets. Með liðinu, sem er í eigu Michels Jordan, leikur einn fremsti miðherji síðari ára, Dwight Howard.

Tryggvi gekk í raðir Valencia á Spáni í sumar og hefur fengið mínútur með aðalliði félagsins, m.a. í EuroLeague.

Bleacher Report spáir því að Deandre Ayton, leikmaður Arizona-háskólans, verði valinn fyrstur í nýliðavalinu 2018. Því er spáð að slóvenska undrabarnið Luka Doncic verði tekinn með öðrum valrétti.

Lista Bleacher Report í heild sinni má sjá með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×