Aukin kosningaþátttaka var í öllum aldurshópum í alþingiskosningum í október, en mest var aukningin á meðal 18-19 ára, eða fyrstu kjósenda. Þar hækkaði hlutfall um 9,5 prósentustig, eða úr 68,7 prósentum árið 2016 í 75,2 prósent árið 2017. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands um alþingiskosningarnar 28. október síðastliðin.
Mest var kosningaþátttaka fyrstu kjósenda á höfuðborgarsvæðinu. Talsvert meiri þátttaka var meðal kvenna en karla í þessum aldursflokki, en sem dæmi kusu 82 prósent kvenna á aldrinum 18-19 ára í Reykjavíkurkjördæmi suður en aðeins tæp 74 prósent karla á sama aldri í sama kjördæmi.
Kosningaþátttaka jókst lítillega frá síðustu alþingiskosningum en hefur þó verið svipuð í síðustu þrennum kosningum. Nú var kjörsókn 81,2 prósent á öllu landinu. Fyrir það var kosningaþátttaka meiri, eða í kringum 85 til 87 prósent.
Kosningaþátttaka var meiri á landsbyggðinni en í Reykjavík, en ef allt höfuðborgarsvæðið er borið saman við landsbyggð má sjá svipaða þátttöku, eða nærri 81%. Kosningaþátttaka var mest í Norðausturkjördæmi en minnst í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Ungir kjósendur tóku við sér
Lovísa Arnardóttir skrifar
