Bandaríski leikarinn og grínistinn Jerry Van Dyke er látinn, 86 ára að aldri. Van Dyke var í fjórgang tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir hlutverk sitt í þáttunum Coach sem framleiddir voru á árunum 1989 til 1997.
Eiginkona hans, Shirley Ann Jones, greindi frá því í gær að Van Dyke hafi andast á búgarði sínum í Arkansas á föstudag. Heilsu leikarans hafði hrakað eftir að hann lenti í bílslysi árið 2015.
Van Dyke var yngri bróðir leikarans Dick Van Dyke, sem þekktur er fyrir frammistöðu sína í þáttunum Dick Van Dyke Show og söngmyndunum Mary Poppins og Chitty Chitty Bang Bang.
Jerry Van Dyke hóf ferilinn sem uppistandari en kom svo fram í þætti bróður síns, The Dick Van Dyke Show, þar sem hann lék bróður persónu Dick Van Dyke. Þá fór hann einnig með hlutverk í The Judy Garland Show.
Van Dyke fór með hlutverk aðstoðarþjálfarans Luther Van Dam í þáttunum Coach sem fjölluðu um bandaríska fótboltaliðið Minnesota State University Screaming Eagles.
