Erlent

Eldur kom upp eftir að tvær farþegavélar rákust saman í Toronto

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Farþegavélin sem var rýmd tilheyrir flugfélaginu WestJet.
Farþegavélin sem var rýmd tilheyrir flugfélaginu WestJet. Visir/afp
Rýma þurfti farþegaflugvél á Lester Pearson-flugvelli í Toronto eftir að tvær flugvélar rákust saman á jörðu niðri. Eldur kom upp í annarri vélinni eftir áreksturinn en 168 farþegar auk sex áhafnarmeðlima voru um borð. Reuters greinir frá þessu. 

Tilkynnt var um einhver smávægileg slys á fólki en að öðru leyti sluppu allir þeir sem staddir voru um borð í flugvélinni með skrekkinn.

Farþegavélin, sem var af gerðinni Boeing 737-800, var nýlent í Toronto en henni hafði verið flogið frá Cancún í Mexíkó. Verið var að bíða eftir að hægt væri að aka vélinni að landgöngubrú þegar áreksturinn varð. Hin flugvélin var mannlaus en verið var að draga hana milli stæða.

Líkt og sjá má á myndbandi sem fylgir fréttinni rakst vængur vélarinnar sem verið var að toga í hreyfil kyrrstæðu vélarinnar og í kjölfarið kom mikill blossi og eldur kviknaði í ytri búnaði mannlausu vélarinnar. Óttast var að eldurinn myndi breiðast út en slökkviliði á staðnum tókst að ráða niðurlögum eldsins áður en hann breiddist út í hina vélina, sem var þéttsetin farþegum.

Verið er að rannsaka tildrög óhappsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×