Æðstiklerkur Írans sakar óvini ríkisins um að bera ábyrgð á öldu mótmæla í landinu sem staðið hefur yfir undanfarna daga en á þriðja tug hafa týnt lífi í átökunum. Þá mótmælti fjöldi íranskra flóttamanna víða í heiminum í dag til að sýna samstöðu með mótmælendum í heimalandinu.
Minnst tuttugu og tveir liggja í valnum eftir mótmælin sem geysað hafa í Íran undanfarna daga og fleiri hundruð særðir eftir átök við lögreglumenn að því er fram kemur á fréttavef BBC. Áhrifa mótmælanna hefur einnig gætt víðar um heim en íranskir flóttamenn sýndu löndum sínum stuðning í verki í nokkrum borgum Evrópu í dag.
Þá tjáði Donald Trump Bandaríkjaforseti sig um mótmælin á Twitter í dag en hann segir írönsku þjóðina loksins vera að rísa upp gegn órétti og spilling í landinu. Þá beindi hann spjótum sínum að Barack Obama, forrvera sínum í embætti, og segir hann fjárstuðning Bandaríkjamanna við Íran í stjórnartíð Obama hafa runnið beint í hendur hryðjuverkamanna.
Óeirðirnar eru þær fjölmennustu í landinu í átta ár en þær hófust síðastliðinn fimmtudag í borginni Mashhad þar sem almenningur lýsti yfir óánægju sinni með stöðu mála á vinnumarkaði og efnahagsástand almennt.

