Bogi Nilsson, settur ríkissaksóknari, hefur staðfest ákvörðun setts héraðssaksóknara um að fella niður hið svokallaða LÖKE-mál gegn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur.
Alda Hrönn rannsakaði LÖKE-málið á sínum tíma þegar hún var staðgengill lögreglustjóra á Suðurnesjunum.
Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður og starfsmaður Nova kærðu Öldu Hrönn fyrir brot á friðhelgi einkalífs þeirra, aðdróttanir í þeirra garð og hvernig rannsókn hennar á LÖKE-málinu, sem snerist um að myndum hefði verið dreift úr lokuðu kerfi lögreglunnar, hafi verið unnin.
Málið hefur farið fram og til baka í dómskerfinu eftir að Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í málinu, tók ákvörðun um að fella niður rannsókn á hendur Öldu árið 2016.
Bogi Nilsson, sem var settur ríkissaksóknari í málinu, ákvað hins vegar að snúa þeirri ákvörðun við vegna ummæli sem lögreglufulltrúi, sem aðstoðaði Lúðvík við málið, hafi verið vanhæfur vegna ummæla sem hann lét falla um Öldu Hrönn á Facebook, nokkrum dögum eftir að ákvörðun setts héraðssaksóknara um niðurfellingu málsins lá fyrir.
Settur héraðssaksóknari felldi málið niður á nýjan leik í október á síðasta ári. Var niðurfellingin kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti nýverið ákvörðun setts héraðssaksóknara.
Í niðurstöðu setts ríkissaksóknara segir að ekki verði sé að sú rannsókn sem Alda Hrönn bar ábyrgð á hafi verið óeðlileg eða í andstöðu við lagafyrirmæli. Þá segir einnig að annmarkar á upphafi rannsóknarinnar, sem Alda Hrönn beri ábyrgð á, þykju ekki slíkir að þeir geti varðað við lögreglulög eða almenn hegningarlög.
Þá er einnig tekið fram að rannsókn á hendur Öldu Hrannar hafi ekki hafist fyrr en að tvö ár voru liðin frá því rannsókn Öldu Hrannar á LÖKE-málinu hafi hafist. Segir því í niðurstöðu setts ríkissaksóknara að hafi háttsemi Öldu Hrannar varðað við lög væri brotin fyrnd þar sem meint brot fyrnist á tveimur árum.
Niðurfelling LÖKE-málsins staðfest

Tengdar fréttir

Mál gegn Öldu Hrönn fellt niður
"Það er mér mikill léttir að settur héraðssaksóknari hafi í annað sinn komist að þessari niðurstöðu enda hefur málið reynt mjög á mig og fjölskyldu mína.“

Kæra á hendur Öldu Hrönn felld niður
Ekki eru líkur á sakfellingu að mati Lúðvíks Bergvinssonar, setts héraðssaksóknara í máli aðallögfræðings lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðingu. Verður áfrýjað segir Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður kæranda.

Snýr við ákvörðun um að fella niður mál á hendur Öldu Hrönn
Settur ríkissaksóknari telur að lögreglufulltrúi, sem aðstoðaði settan héraðssaksóknara við málið, hafi verið vanhæfur vegna ummæla sem hann lét falla um Öldu Hrönn á Facebook.