Erlent

Hlýnun jarðar mögulega minni en í verstu spám en meiri en í þeim skástu

Kjartan Kjartansson skrifar
Menn eru komnir langt á veg með að tvöfalda styrk koltvísýrings í lofthjúpnum. Spurningin er hversu næmt loftslagið er nákvæmlega fyrir þeirri breytingu.
Menn eru komnir langt á veg með að tvöfalda styrk koltvísýrings í lofthjúpnum. Spurningin er hversu næmt loftslagið er nákvæmlega fyrir þeirri breytingu. Vísir/AFP
Aðstandendur nýrrar rannsóknar segja að hún dragi úr óvissu um hversu mikið jörðin mun hlýna með tvöföldun styrks gróðurhúsalofttegunda um 60%. Niðurstaðan bendir til þess að hlýnun verði ekki eins mikil og óttast var að hún gæti orðið mest. Líklegra sé hins vegar að hún verði meiri en bjartsýnni sviðsmyndir spáðu fyrir um.

Menn eru um það bil hálfnaðir með að tvöfalda styrk koltvísýrings í lofthjúpnum með brennslu á jarðefnaeldsneyti, landbúnaði og landnotkun sinni. Styrkurinn var 280 hlutar af milljón fyrir iðnbyltingu en er nú 405 hlutar af milljón.

Eitt stærsta spurningarmerkið í rannsóknum á hversu mikið loftslag jarðar mun hlýna í kjölfarið varðar hversu næmt loftslagslagið er fyrir hækkandi styrk koltvísýrings í lofthjúpnum. Loftslagslíkön hafa gefið niðurstöður á töluvert breiðu bili fyrir tvöföldun styrksins.

Þannig hefur möguleg hlýnun verið talin geta orðið á bilinu 1,5 til 4,5°C fyrir lok þessarar aldar. Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnuninni innan við 2°C og reyna að takmarka hana við 1,5°C ef hægt er.

Litlar líkur á mestu og minnstu hlýnuninni

Markmið rannsóknar þriggja vísindamanna við Exeter-háskóla og Vistfræði- og vatnafræðimiðstöð Bretlands var að draga úr óvissunni um næmni loftslagsins, að því er segir í umfjöllun Washington Post. Grein um rannsóknina birtist í vísindaritinu Nature.

Rannsakendurnir  skoðuðu árlegar náttúrulegar sveiflur í lofslaginu sem eru óháðar styrk gróðurhúsalofttegunda og hvernig þær tengdust næmi kerfisins.

Ef ætlunin er að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga þurfa menn að draga hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis og skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa eins og sólarorku.Vísir/AFP
Niðurstaða þeirra er að litlar líkur séu á mestu mögulegu hlýnuninni samkvæmt líkönunum. Slæmu fréttirnar eru hins vegar að þeir telja einnig að litlar líkur séu að hlýnunin verði á lægri enda bilsins. Þannig séu innan við 3% líkur á að hlýnunin verði 1,5°C eða minni við tvöföldun styrks koltvísýrings og innan við 1% á að hún verði 4,5°C eða meiri.

„Við teljum að líklegasta bilið sé 2,2 til 3,4°C svo það gerir frekar lítið úr spám um mikla næmni loftslag fyrir ofan 4°C og litla næmni fyrir neðan 2°C,“ segir Peter Cox frá Exeter-háskóla við bandaríska dagblaðið.

Miðgildi mögulegrar hlýnunnar væri því 2,8°C fyrir lok aldarinnar, aðeins lægra en þær 3°C sem bilið með meiri óvissu gefur til kynna.

Stangast á við sambærilega rannsókn

Cox segir jafnframt að séu niðurstöður þeirra félaganna réttar þá séu menn líklega við það að fara yfir 1,5°C-mörkin úr Parísarsamkomulaginu en hugsanlegt sé að halda hlýnuninni innan við 2°C.

Nýja rannsóknin er þó fjarri því að svara spurningunni um næmni loftslagsins fyrir gróðurhúsalofttegundum endanlega. Þannig stangast niðurstöður hennar á við svipaða rannsókn sem birtist í fyrra.

Höfundar hennar komust að þeirri niðurstöðu að loftslagslíkön sem fanga best núverandi aðstæður í loftslagi jarðar séu jafnframt þau sem geri ráð fyrir mestri hlýnun í framtíðinni með áframhaldandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum. Þannig gæti hlýnun orðið jafnvel enn meiri en óttast hefur verið. Sú rannsókn byggði á annarri aðferð en sú nýja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×