Íranska olíuflutningaskipið Sanchi, sem sökk í gær eftir að hafa staðið í ljósum logum á Austur-Kínahafi undanfarna viku, lekur nú olíu. Skipið var á leið til Kína með 136.000 tonn af hráolíu, alls um 960.000 tunnur, og er mengunin ekki sjáanleg á yfirborðinu að því er BBC greinir frá.
Kínversk skip flykktust á staðinn í gær til þess að greina vandann og reyna að leysa úr honum. Talið er að bæði farmurinn og olían sem knúði skipið geti raskað lífríki sjávar allverulega.
Sanchi lenti í árekstri við gámaflutningaskip 260 kílómetra frá Sjanghæ þann 6. janúar og við það kviknaði í íranska skipinu.
Óljóst er hvað olli árekstrinum. Allir 32 skipverjarnir, þrjátíu frá Íran og tveir frá Bangladess, eru taldir af. Lík þriggja hafa fundist.
Að sögn Robins Brant, blaðamanns BBC í Kína, er um að ræða mun meira unna og verðmætari hráolíu en þá svörtu sem oft hefur lekið í hafið. Þessi olía sé léttari og mun eldfimari.
Til samanburðar við hinar 960.000 tunnur sem gætu nú mengað Austur-Kínahaf er vert að taka fram að í olíulekanum sem varð við sprengingu í Deepwater Horizon-borpallinum á Mexíkóflóa árið 2010 flæddu um 4,9 milljónir tunna út í sjóinn.
Þá lak Exxon Valdez 260.000 tunnum við Alaska árið 1989.
Íranska skipið Sanchi lekur olíu í tonnavís
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
