Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid halda til Uppsala í dag á þriðja og síðasta degi opinberrar heimsóknar þeirra til Svíþjóðar. Einn af hápunktum dagsins verður þegar utanríkisráðherra mun afhenda menningarmálaráðherra Svíþjóðar gjöf frá íslensku þjóðinni.
Forsetahjónin munu fyrst heimsækja Landhúnaðarháskóla Svíþjóðar í Uppsölum þar sem meðal annars verður sagt frá rannsóknum sem tengjast íslenska hestinum. Þaðan verður farið í Ångström tilraunastofu Uppsalaháskóla þar sem sagt verður frá hinum ýmsum orkurannsóknum.
Skoða Uppsala-Eddu Snorra
Stjórnendur Uppsalaháskóla munu svo taka á móti forsetahjónunum og munu þau hlýða á erindi um norrænar fornbókmenntir. Þá munu þau Guðni og Eliza skoða Uppsala-Eddu, miðaldahandrits Snorra Sturlusonar.
Í hádeginu mun landshöfðingi Uppsalaléns bjóða til hádegisverðar í Uppsalahöll og mun Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þar afhenda sænskum stjórnvöldum að gjöf 400 sett af nýrri sænskri þýðingu á Íslendingasögum í fimm bindum. Alice Bah Kuhnke, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, mun veita bókunum viðtöku.
Konungshjónin munu að því loknu kveðja forsetahjónin sem halda svo heim til Íslands.
Afhenda sænsku þjóðinni 400 sett af Íslendingasögunum á sænsku

Tengdar fréttir

Guðni þakkaði Svíakonungi fyrir lánið á Lars Lagerbäck
Þriggja daga opinber heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Elizu Reid forsetafrúar til Svíþjóðar hófst í dag.

Barnahús, nýbyggingar og baráttan gegn matarsóun á dagskrá forsetahjónanna í dag
Dagskráin er ströng hjá forsetahjónunum á öðrum degi opinberrar heimsóknar þeirra til Svíþjóðar.