Innlent

Sjöföld sala á lími vegna slímæðis

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Slímæði virðist herja á yngri kynslóðirnar ef marka má sölutölur á lími í föndur- og ritfangaverslunum. Lím er mikilvægur líður í slímgerð en verslunarstjóri föndurbúðarinnar Panduro segir límið í fyrsta sinn orðið söluhæstu vöru búðarinnar.

„Það eru bara allir krakkar á landinu að búa til slím. Það er aðaldæmið í dag," segir Eva Rán Reynisdóttir, verslunarstjóri. „Á milli ára frá 2016 til 2017 hefur orðið 750% söluaukning á lími. Og það er ekkert í rénum," segir Eva.

Slímið má þó búa til með ýmsum hætti en margar uppskriftir saman standa af undarlegri blöndu linsuvökva, rakfroðu og auðvitað límsins sem starfsmenn hafa vart undan að panta.

„Suma daga erum við alveg að selja birgðirnar okkar, bara nokkra tugi flaskna. Síðan aðra daga er það minna og það fer bara eftir því hvort krakkarnir séu í skólafríum eða hvaða vikudagar séu," segir Eva.

Hefur þetta verið að seljast upp?

„Já, hvað eftir annað," segir Eva.

Hún rekur vinsældirnar til uppskriftarmyndbanda á netinu.

„Þetta er bara Youtube en síðan finnst krökkum bara gaman að búa til eitthvað. Og þetta er eins og hvert annað föndur," segir Eva.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×