Veðurstofan spáir suðvestlægri átt og skúrum í dag en kólnandi veðri. Úrkoma muni því breytast í slydduél eða él á morgun. Hálka eða snjóþekja er á vegum um allt land, að sögn Vegagerðarinnar. Áfram er spáð suðlægum áttum á landinu fram á þriðjudag.
Úrkomuminna á að vera á Norðaustur- og Austurlandi og er spáð bjartviðri þar á morgun. Þar verður áfram þurrt fram á þriðjudag á meðan él og snjókoma falla af og til annars staðar á landinu.
Á miðvikudag snúast aðstæður við þegar vindur snýst í norðanátt. Þá er spáð éljum á Norður- og Austurlandi en bjartara veðri sunnanlands. Þá á jafnframt að kólna í veðri með þriggja til átta stiga frosti.
Áfram er spáð frosti á fimmtudag og léttskýjuðu eða björtu veðri um allt land.
