Sport

Lindsey Vonn brotnaði niður og grét á fyrsta blaðamannafundi sínum í PyeongChang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Vonn á fundinum.
Lindsey Vonn á fundinum. Vísir/Getty
Það var tilfinningarík stund á blaðamannafundi Lindsey Vonn í PyeongChang í Suður-Kóreu í nótt en bandaríska skíðakonan hélt þá sinn fyrsta blaðamannafund eftir komuna til Suður-Kóreu.

Lindsey Vonn er fyrrum Ólympíumeistari, tvöfaldur heimsmeistari og hefur unnið 81 mót í heimsbikarnum. Hún er með 1,2 milljón fylgendur á Instagram og er ein frægasta íþróttakona heims.

Það eru miklar væntingar gerðar til Lindsey Vonn á Ólympíuleikunum í PyeongChang enda hefur hún verið að skíða frábærlega í heimsbikarnum. Það var því gríðarlegur áhugi á því að spyrja Vonn spjörunum úr á þessum fundi.

Vonn brotnaði hinsvegar niður á blaðmannafundinum og það fyrir framan risastóran sal með yfir hundrað fjölmiðlamönnum.

Ástæðan var að Vonn byrjaði að tala um afa sinn, Don Kildow, sem lést í nóvember síðastliðnum.

„Ég sakna hans svo mikið. Ég vildi óska þessa að hann væri á lífi og gæti séð mig á þessum Ólympíuleikum,“ sagði Lindsey Vonn og gat ekki haldið aftur af tárunum.







Afi hennar barðist í Kóreustríðinu og búðir hans voru stutt frá því þar sem Vonn mun keppa á Ólympíuleikunum.

„Hann var stór hluti af mínu lífi og ég ætla að vinna gullið fyrir hann,“ sagði Lindsey Vonn. Hún er sigurstranglegust í bruni á Ólympíuleikunum í PyeongChang.

Lindsey Vonn ferðaðist ekki ein til Suður-Kóreu því með í för var hundurinn Lucy. Fluginu seinkaði um sex tíma og það tók hana alls sólarhring að komast á réttan stað.





„Ég velti því fyrir mér hvort að ég ætti að taka hana með því þetta er svo langt í burtu. Ég vildi bara að hún væri með í mikilvægustu keppninni minni. Síðan ég skildi þá hef ég haft mikinn tíma fyrir mig sjálfa. Það er einmannalegt og erfitt að vera ein á hóteli og þessa vegna er gott að hafa hana alltaf með mér,“ sagði Vonn.

Lucy Vonn kunni greinilega vel við sviðsljósið á blaðamannfundinum. „Hún er án ef stærri stjarna en ég,“ sagði Vonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×