Körfubolti

Dirk Nowitzki búinn að spila meira en 50 þúsund mínútur í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Vísir/Getty
Þýski körfuboltamaðurinn Dirk Nowitzki varð í nótt aðeins sjötti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta sem nær því að vera inná vellinum í meira en 50 þúsund mínútur.

Dirk Nowitzki náði þessu í leik Dallas Mavericks á móti Los Angeles Clippers í nótt en Dallas tapaði lokamínútununm 13-0 og þar með leiknum með þremur stigum.

Nowitzki var með 12 stig á 25 mínútum í leiknum en hann hefur spilað allan sinn NBA-feril með Dallas Mavericks.

Nowitzki vantaði fyrir leikinn sjö mínútur til að komast í hópinn með fimm öðrum 50 þúsund mínútu mönnum en þeir eru Kareem Abdul-Jabbar, Karl Malone, Kevin Garnett, Jason Kidd og Elvin Hayes. Nowitzki er þegar kominn upp fyrir Elvin Hayes.



Nowitzki á nokkuð í land með að ná meti Kareem Abdul-Jabbar sem spilaði á sínum ferli í 57.446 mínútur.

Nowitzki er einnig sjötti stigahæsti leikmaður sögunnar með 30.901 stig en hann hefur aðeins misst af 29 leikjum á síðustu ellefu tímabilum og hefur spilað 37,5 mínútur að meðaltali í leik á þessum tíma.

LeBron James óskaði Nowitzki til hamingju með áfangann inn á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.





Nowitzki er nú 39 ára gamall og að spila 24,9 mínútur að meðaltali í leik á þessu tímabili. Hann er með 12,1 stig og 5,6 fráköst í leik en er að hitta úr 54,4 prósent skota sinna.

Nowitzki gefur ekkert eftir í boltanum en hann er á góðri leið með að komast í hóp með þeim John Stockton og Michael Jordan sem eru þeir einu sem hafa náð að spila alla 82 leiki tímabilsins eftir að þeir urðu 39 ára.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×