„Þú gerir þér eflaust grein fyrir því að þetta sé búið. Fólkið okkar hefur fórnað okkur, eða að minnsta kosti mér,“ sagði í skilaboðum sem Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, sendi fyrrverandi heilbrigðisráðherranum Toni Comín í gær. Telecinco náði myndum af skilaboðunum.
Vísaði Puigdemont einnig til þingmannsins og aðskilnaðarsinnans Joan Tarda í skilaboðunum. „Þið verðið ráðherrar, vona ég, en mér hefur nú þegar verið fórnað eins og Tarda hefur áður sagt.“
Skilaboðin voru send á sama tíma og Puigdemont hvatti til sameiningar á samfélagsmiðlum og greindi frá því að hann ætlaði sér að endurheimta héraðsforsetastólinn.
Puigdemont játaði því í gær að skilaboðin væru frá honum en sagði að þrátt fyrir það væri hann best til þess fallinn að leiða Katalóníu. „Ég sem blaðamaður hef alltaf gert mér grein fyrir þeim óskrifuðu reglum sem fylgja starfinu, til að mynda þegar kemur að friðhelgi einkalífsins. Þessar reglur má ekki brjóta,“ sagði Puigdemont. Bætti hann því við að hann væri einungis mannlegur og að það væri mannlegt að efast.
