Lögin þrjú munu etja kappi við lög Heimilistóna, Ara Ólafssonar og Fókus hópsins í úrslitum söngvakeppninnar sem haldin verður þann 3. mars næstkomandi. Sigurlagið verður framlag Íslands á Eurovision í Portúgal í vor. Þá kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu að í ár verði ekkert svokallað „wild card“ í úrslitum, þ.e. eitt af þeim lögum sem ekki komust áfram á undankvöldunum.
Kvöldið var spennuþrungið, enda settu tæknilegir örðugleikar strik í reikninginn strax í byrjun keppninnar þegar mistök í hljóðvinnslu urðu til þess að Aron Hannes flutti lag sitt aftur.
Mistökin komu ekki að sök heldur var lagið Golddigger með Aroni Hannesi fyrst upp úr hattinum. Höfundar lags og texta eru Sveinn Rúnar Sigurðsson, Jóel Ísaksson, Oskar Nyman og Valgeir Magnússon.
Þá var komið að laginu Hér með þér í flutningi Áttumeðlimanna Egils Ploders og Sonju Valdin. Höfundar eru téður Egill og Nökkvi Fjalar Orrason, félagi Egils og Sonju úr Áttunni.
Síðasta lagið sem komst áfram var svo Í stormi sem Dagur Sigurðsson flutti af mikilli innlifun. Áður en tilkynnt var um lagið hófu áhorfendur að kyrja nafn Dags svo augljóst þótti að ánægja ríkti með innihald umslagsins.
Hér að neðan má hlýða á lögin sem komust áfram í kvöld.