Körfubolti

Velkominn í þennan NBA-hóp herra Jokic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic.
Nikola Jokic. Vísir/Getty
Serbíumaðurinn Nikola Jokic átti frábæran leik í NBA-deildinni í nótt og kom sér líka með því á fleiri en eina síðu í sögubókum NBA-deildarinnar í körfubolta.

Nikola Jokic var með 30 stig, 15 fráköst og 17 stoðsendingar í 134-123 sigri Denver Nuggets á Milwaukee Bucks.

Jokic var þarna að ná þrennu í öðrum leiknum í röð því hann var með 23 stig, 13 fráköst og 11 stoðsendingar í sigri á San Antonio Spurs. Jokic er með fimm þrennur á tímabilinu þar af fjórar þeirra eftir 27. janúar.

Með því að ná 30-15-15 þrennu komst hann í úrvalshóp en aðeins fimm aðrir leikmenn í sögu NBA hafa náð því. Þeir eru Larry Bird, Wilt Chamberlain, Magic Johnson, Oscar Robertson og James Harden. Harden og Jokic eru þeir einu sem eru enn að spila.







Nikola Jokic kom sér líka í efsta sæti á listanum yfir þá leikmenn sem hafa verið fljótastir að ná þrennu í leik undanfarin tuttugu ár.

Jokic var kominn með þrennuna þegar 1:54 voru enn eftir af öðrum leikhluta og bætti þar með afrek Russel Westbrook frá því í desember 2016. Westbrook náði þeirri þrennu þegar 34 sekúndur voru til hálfleiks.







Nikola Jokic er enn bara 22 ára gamall en hann er á sínu þriðja ári í NBA-deildinni. Jokic er með 16,9 stig, 10,6 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessari leiktíð. Hann var í fyrra með 16,7 stig, 9,8 fráköst og 4,9 stoðsendingar.

 

Jokic er á góðri leið með að hækka meðaltöl sín í stigum, fráköstum og stoðsendingum annað tímabilið í röð.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×