Snorri Einarsson varð fyrstur íslendinga til að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu.
Snorri hafnaði í morgun í 56. sæti í 30 km skiptigöngu karla. Kom hann í mark á 1:23:33.9 klst og varð 7,13 mínútum á eftir Norðmanninum Simen Hegstad Krueger sem varð ólympíumeistari á tímanum 1:16,20 klst.
Norðmenn sem hafa verið í sérflokki í þessari grein undanfarin ár röðuðu sér í þrjú efstu sætin í göngunni. Snorri keppti undir merkjum Noregs til 2016 þegar hann ákvað að skipta yfir og keppa fyrir hönd Íslands. Snorri á íslenskan föður en norska móður og er því með tvöfalt ríkisfang.
Í skiptigöngu eru fyrstu 15 km göngunnar með hefðbundinni aðferð áður en skipt er svo um búnað og 15 km með frjálsri aðferð gengnir í beinu framhaldi.
Freydís Halla Einarsdóttir er næst íslendinga til að keppa á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu, en hún keppir í stórsvigi á morgun.
