Lífið

Ari, Fókus-hópurinn og Heimilistónar áfram í úrslit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigurvegar kvöldsins.
Sigurvegar kvöldsins. Mynd/Mummi Lú
Heimilistónar, Ari Ólafsson og Fókus hópurinn tryggðu sér í kvöld sæti á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar. Munu þessi lög því keppa um sæti Íslands á Eurovision í Portúgal í vor.

Fyrra undanúrslitakvöld Söngvakeppninnar var haldið í Háskólabíó í kvöld. Alls kepptu sex lög um þrjú sæti á lokakvöldinu.

Stemmningin var rafmögnuð þegar Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Jón Jónsson tilkynntu um hvaða lög færu áfram.

Fyrst upp úr hattinum var lagið Aldrei gefast upp í flutningi Fókus hópsins en í honum eru Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósa Björg Ómarsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Eiríkur Þór Hafdal. Höfundur lags eru Sigurjón, Rósa, Michael James Down og Primoz Poglajen. Höfundur texta er Þórunn Erna Clausen.

Næst var komið að því að tilkynna að lagið Heim í flutningi Ara Ólafssonar væri komið áfram en lag og texti eru eftir Þórunni Ernu Clausen sem kemur því að tveimur lögum á úrslitakvöldinu.

Þriðja og síðasta lagið sem komst áfram var lagið Kúst og Fæjó í flutningi Heimilistóna en höfundar lags eru Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir.

Seinna undanúrslitakvöldið verður haldið um næstu helgi en úrslitakvöldið fer fram 3. mars og verður þá úr skorið um hvaða lag fer fyrir Íslands hönd í Eurovision.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×