Skoðun

Á einhver krana?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Borgarfulltrúi skrifaði grein um umferðarmál í vikunni. Þar sagði hann að ef götur væru breikkaðar og mislæg gatnamót byggð, þá væri það skammgóður vermir, bílum fjölgaði jafnharðan og allt væri komið í verri hnút. Þetta er áhugavert. Aumingja borgin byggir vegi til að létta á umferðinni og við hlaupum til og eyðileggjum allt með því að kaupa fleiri bíla og allt fer í sama horfið.

Meirihlutinn í Reykjavík ætlar að stöðva þetta og nú á að fara í Sovét-stæl risalausn sem á að redda málum í eitt skipti fyrir öll, allir í strætó, allir sem einn.

Staðreyndin er að fólki er að fjölga á Íslandi og því fjölgar bílunum og fólk kaupir ekki bíla til að hrekkja Skúla Helga og Dag B. Bíllinn er þægilegur ferðamáti í landi þar sem veðráttan sveiflast á milli þess að vera ömurleg og hræðileg. Borgarlínan mun ekki breyta þessu og rándýr tilraun sem gekk út á að stórauka hlutfall ferða með strætó skilaði því að hlutfallið fór úr 4% í 4%.

Í öðrum fréttum vikunnar kom fram að Dagur B. hélt að ástæðan fyrir því að ekki væri byggt nóg í Reykjavíkurborg væri sú að það vantaði byggingarkrana. Þetta er í takti við þá kenningu Dags að allir aðrir en hann beri ábyrgð á þróun mála í borginni. Þetta væri fyndið ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hækkun húsnæðisverðs sem lóðaskorturinn hefur búið til, hefur leitt til hækkunar á verðbólgu og þar með kostað skuldug heimili um land allt gríðarlega fjármuni vegna hárra vaxta. Er hægt að senda reikninginn á Reykjavíkurborg?




Skoðun

Sjá meira


×