Körfubolti

Sannleikurinn kostaði Cuban meira en 60 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks.
Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks. Vísir/Getty
Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, fékk stóra sekt frá yfirmanni NBA-deildarinni í gær og það fyrir að segja sannleikann og tala um hlut sem enginn er í vafa um að tíðkist í deildinni.

Cuban þarf að borga 600 þúsund dollara fyrir orðin sem hann lét falla fyrr í vikunni. Hann sagðist þá hafa beðið leikmenn Dallas liðsins um að tapa leikjum svo félagið fengi betri stað í nýliðavalinu í sumar.  

Cuban talaði jafnframt um það að hann hafi bara viljað koma hreint fram og segja sannleikann.

„Ég á líklega ekki að segja frá þessu en ég fór í mat með nokkrum leikmönnum liðsins um daginn. Við erum ekki að keppa um sæti í úrslitakeppninni og ég sagði við þá að það besta sem gæti komið fyrir liðið núna væri að tapa sem flestum leikjum. Yfirmaður NBA-deildarinnar verður ekki ánægður að heyra þetta,“ sagði Mark Cuban og hann hitti naglann á höfuðið þar.





600 þúsund dollarar eru meira en 60 milljónir íslenskra króna. Þetta er enn ein sektin sem Cuban fær á ferlinum en hann hefur aldrei verið hræddur við að tjá sig frjálslega um það sem honum líkar ekki.  

Adam Silver, yfirmaður NBA-deildarinnar, sagði að sektin væri vegna þess að orð Mark Cuban hafi verið skaðleg fyrir deildina.

Darren Rovell kom með sitt sjónarhorn á sektina á Twitter og þá virka 60 milljónir kannski ekki svo mikill peningur, fyrir Cuban þar að segja.







Mark Cuban er margfaldur milljarðamæringur og virði 3,7 milljarða dollara. Þannig að hlutfallslega var hann því aðeins að fá 28 dollara sekt miðað við meðal Bandaríkjamann.

Cuban hefur þó ekki tekist að sannfæra stórstjörnuna Dirk Nowitzki um að tapa leikjum viljandi. „Það myndi ég aldrei líða. Þannig maður er ég ekki,“ sagði Nowitzki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×