Fótbolti

Táningur frá Lundúnum fyrsti Englendingurinn sem spilar fyrir Barcelona í 29 ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marcus McGuane fór frá Arsenal til Barcelona.
Marcus McGuane fór frá Arsenal til Barcelona. vísir/getty
Barcelona vann Espanyol, 4-2, í vítaspyrnukeppni þegar liðin mættust í skráðum vináttuleik um stórbikarinn í Katalóníu í gærkvöldi. Á tveggja ára fresti mætast bestu lið héraðsins í þessum leik og endurheimti Barcelona bikarinn sem Espanyol vann árið 2016.

Söguleg stund fyrir enskan fótbolta átti sér stað í leiknum þegar að 19 ára gamall enskur unglingalandsliðsmaður, Marcus McGuane, kom inn á fyrir Aleix Vidal á 77. mínútu.

McGuane varð um leið fyrsti enski fótboltamaðurinn til að spila fyrir katalónska stórveldið í 29 ár eða síðan Gary Lineker yfirgaf Barcelona árið 1989 og hélt til Tottenham í ensku 1. deildinni.

McGuane er fæddur og uppalinn í Lundúnum og var áratug í unglingaakademíu Arsenal. Hann spilaði tvo leiki, samtals tólf mínútur, fyrir Skytturnar í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrir áramót en skipti svo yfir í Barcelona í janúar.

Strákurinn ungi spilar með B-liði Barcelona í spænsku 2. deildinni en þar hefur hann komið við sögu í fjórum leikjum.

Hann var einn af tólf leikmönnum varaliðsins sem fékk kallið í þennan vináttuleik sem var spilaður á hlutlausum velli í Katalóníu en McGuane fékk smá pepp frá Gary Lineker á Twitter þegar að honum var bent á þessa staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×